Námið

Hver starfsnámsbraut sem er í boði í hvert sinn er í umsjón eins tiltekins skóla.  Sá skóli ber ábyrgð á náminu, skipuleggur það og veitir nánari upplýsingar.  Kennsla í einstaka áföngum getur þó farið fram hjá fleiri en einum skóla.

 

Einkum eru notaðar tvær aðferðir við kennslu.  Annars vegar lotukennsla og hins vegar fjarkennsla.  Sumir áfangar eru eingöngu fjarkenndir, aðrir kenndir í lotum eða þá með blöndu af þessum tveimur aðferðum, svokölluðu dreifnámi.  Fjarkennslan getur verið á netinu eingöngu og þá í gegnum tölvur en einnig er viðbúið að í einhverjum áföngum verði myndfundabúnaður nýttur og þá er miðað við að nemendur mæti á fyrirfram ákveðna staði á tilteknum tíma.  Loturnar eru skipulagðar fyrirfram fyrir hverja önn og það skipulag tilkynnt í upphafi annar.  Tilgreint er hvar lotan verður haldin og hve lengi hún stendur.  Mjög mikilvægt er að nemendur mæti í námslotur.

Ef boðið er upp á staðbundna áfanga í nærskóla nemenda, sem eru hluti af námi á viðkomandi braut, þá geta nemendur tekið þá og þurfa því ekki endilega að taka þá í fjar- eða dreifnámi.

 

Umfang náms á hverri önn er við það miðað að nemendur geti stundað nám með vinnu.  Á það skal þó bent að gott getur verið að miða við að vinna sé um 100 klukkustundir í  hverjum þriggja eininga áfanga samkvæmt gamla einingakerfi framhaldsskóla.  Í nýja kerfinu er miðað við að vinna við hverja einingu sé um 20 klukkustundir.