Fjarmenntaskólinn eflir framhaldsskólanám á landsbyggðinni

Fjarmenntaskólinn er samstarfshattur þrettán framhaldsskóla á landsbyggðinni. Samstarfið byggist á þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi sameiginlegu námsframboði í starfsnámi svo sem sjúkraliðanámi, skrifstofubraut og húsasmíði. Í öðru lagi miðlun náms og kennslu á milli skólanna og í þriðja lagi faglegu samstarfi stjórnenda skólanna.

Framhaldsskólar í fámennu dreifbýli þurfa um margt að leysa önnur verkefni en stórir skólar í þéttbýli. Hver þeirra er með sína sérhæfingu sem síðan er hægt að miðla milli þeirra allra. Sérhæfingin getur falist í námsleiðum, sérmenntuðum starfsmönnum og annarri sérþekkingu. Með samstarfinu styrkjast því allir skólarnir. Með nútímatækni starfa skólarnir þétt saman, miðla fjarnámi frá sér og taka á móti því til sín. Námsframboð nemenda eykst, kennarar geta miðlað sérþekkingu sinni víðar og faglegt starf stjórnenda eflist. Þannig verður rekstur hvers skóla hagkvæmari og víðtækari sérþekking fyrir hendi.

Fjarmenntaskólinn varð til árið 2012 og eru nú þrettán skólar í samstarfi. Í starfs- og verknámi taka einn eða fleiri skólar að sér að halda utan um nám á tilteknum brautum. Námsframboðið er skipulagt nokkrar annir fram í tímann og kynnt sameiginlega undir merkjum Fjarmenntaskólans. Hver áfangi er svo skipulagður annars vegar sem fjarnámsáfangi eða hins vegar sem lotubundið staðnám, þar sem hver lota er í nokkra daga. Þannig komast nemendur til náms án þess að flytja úr heimabyggð. Einnig er algengt að um sé að ræða blöndu af þessum tveimur aðferðum. Skólarnir bjóða upp á nám á mörgum brautum svo sem sjúkraliðanám, félagsliðanám, skrifstofubraut og húsasmíði. Boðið er upp á listnám ásamt námi í listgreinum, útivist og fjallamennsku. Fjarmenntaskólinn hefur einnig boðið nám í samstarfi við Tækniskóla Íslands svo sem tækniteiknun og pípulögn og nú stendur til að bjóða upp á nám í heilbrigðisgreinum í samstarfi við Fjölbrautaskólann við Ármúla.

Skólar Fjarmenntaskólans bjóða einnig hver um sig upp á fjarnám í kennslugreinum sínum sem hver skóli skipuleggur á sinn hátt en upplýsingar um það er hægt að nálgast í gegnum vef Fjarmenntaskólans. Í fámennum áföngum hafa skólarnir einnig miðlað á milli sín nemendum og einnig ef kennara vantar í einhverjar greinar í einhverjum skóla þá getur hann leitað eftir að fá fjarkennslu fyrir þá í einhverjum hinna skólanna innan Fjarmenntaskólans með stuðningi í heimaskóla.

Skólameistarar skólanna þrettán eru með símafundi hálfsmánaðarlega þar sem samstarfið er rætt og einnig önnur sameiginleg mál sem tengjast rekstri framhaldsskóla í dreifbýli. Þessi vettvangur er afar mikilvægur að mati stjórnenda skólanna og þar hafa menn getað rætt og viðrað hugmyndir við kollega um viðfangsefni sem þeir standa frammi fyrir dags daglega. Í vetur hafa svo einnig verið haldnir reglulegir símafundir áfangastjóra skólanna en þeir stýra miðlun námsáfanga og skipulagi.

Mikilvægt hlutverk
Fjarmenntaskólinn hefur sótt um og fengið fjóra styrki úr Sprotasjóði. Sá fyrsti um fjarkennslu til stúdentsprófs með áherslu á umhverfis- og auðlindafræði. Starfsárið 2014-2015 fengust styrkir til að vinna að skipulagningu sameiginlegs starfsnáms og annar til að skipuleggja miðlun náms og kennslu á milli skólanna. Á yfirstandandi skólaári fékkst styrkur til að vinna að svo kölluðum Fardögum. Þar er ætlunin að nemendur fari á milli skóla á þemadögum vorannar 2017 og séu þá í nokkra daga í verk- og listnámi eða öðru þemabundnu námi í öðrum skóla en sínum heimaskóla. Meðal annars er gert ráð fyrir að nýtt verði FabLab-aðstaða í þeim skólum þar sem hún er til staðar.

Það er sameiginlegur skilningur stjórnenda þeirra þrettán skóla sem standa að Fjarmenntaskólanum að hann sé mjög góður vettvangur til að sinna þeim verkefnum sem samstarf innan hans gengur út á. Til lengri tíma litið er líklegt að samstarfið eigi eftir að festast í sessi og formgerast í föstu skipulagi. Fámennari framhaldsskólar á landsbyggðinni þurfa á því að að halda að vera í góðu samstarfi innan stærri heildar til að vega upp ókosti lítilla stofnana. Jafnframt er mikilvægt að hver skóli um sig hafi mikið sjálfstæði svo hann geti verið í nánu samstarfi í sinni heimabyggð og brugðist við þeim þörfum sem þar spretta upp. Með því móti geta skólarnir gegnt mikilvægu hlutverki í eflingu samfélagsins á landsbyggðinni á Íslandi og jafnvel orðið fyrirmynd samstarfs á öðrum sviðum samfélagsins, á öðrum svæðum í Evrópu og í dreifbýli víðsvegar um heiminn.

Eyjólfur Guðmundsson og Lára Stefánsdóttir